Athugið að vegna Covid-19 er tímabundið eingöngu boðið upp á símaviðtöl varðandi ráðgjöf og stuðning, en athvarfið í Reykjavík og athvarfið á Akureyri eru opin allan sólarhringinn þeim konum og börnum sem þurfa að koma til okkar í dvöl.

Konur sem búa við ofbeldi eða hafa búið við ofbeldi geta komið og fengið ráðgjöf, stuðning og upplýsingar án þess að til dvalar komi. Til að koma í viðtal þarf að panta tíma hjá athvarfinu í síma 561 1205 (Reykjavík) eða 561 1206 (Akureyri). Viðtölin eru ókeypis.

Aðstandendur geta einnig nýtt sér þessa þjónustu.

Viðtal er alfarið á forsendum konunnar, það tekur oftast um klukkustund og fer fram í athvarfinu. Ráðgjafi sest niður í viðtalsherbergi með konu og tekur stutta sögu um ástand mála. Það fer algjörlega eftir aðstæðum hver næstu skref verða. Til dæmis gæti konan óskað eftir öðru viðtali, verið vísað í aðra þjónustu eða er boðin dvöl í Kvennaathvarfinu.

Konur koma í viðtöl af ýmsum ástæðum. Stundum koma þær til þess að fá hagnýtar upplýsingar í tengslum við að fara frá ofbeldismanninum, hvernig maður sækir um skilnað, forræðismál, húsnæðismál o.s.frv. Þolendur í heimilisofbeldismálum verða oft ónæmir fyrir ástandinu, hafa vanist orðræðu og hegðun gerenda og eru ekki alltaf vissir hvort um heimilisofbeldi sé að ræða. Það getur verið óþægilegt að ræða erfitt heimilisástand við nákomna, og þess vegna koma konur stundum í viðtal til ráðgjafa Kvennaathvarfsins til að ræða aðstæður sínar.