Tilurð myndarinnar má rekja til þess að starfskonum Kvennaathvarfsins fannst vanta aðgengilegt og vel framsett fræðsluefni fyrir börn um heimilisofbeldi. Myndin var upphaflega hugsuð sem liður í aukinni áherslu á þjónustu við þau börn sem koma til dvalar í Kvennaathvarfið. Hún er ekki síður mikilvæg öllum þeim börnum sem búa við ofbeldi eða þau sem þekkja einhvern sem býr við ofbeldi. Við vildum bæði gera þennan hóp barna sýnilegri í samfélaginu en aðallega að koma ákveðnum skilaboðum til barna. Þess vegna fannst okkur að myndin yrði að vera aðgengileg öllum.

Í myndinni hvetjum við börnin til að segja frá ofbeldinu, ofbeldið á ekki að vera leyndarmál. Þau mikilvægu skilaboð sem börnin sitja vonandi eftir með eftir áhorf á teiknimyndina eru meðal annars:

• Heimilisofbeldi er ekki einkamál fjölskyldna
• Að heimilisofbeldi geti átt sér stað í öllum fjölskyldumynstrum
• Ofbeldið er aldrei barninu að kenna
• Það eru fullrðnir sem bera ábyrgð á að börnum líði vel og fullorðnir verða að leysa vandann
• Fáðu hjálp með því að segja frá, það er alltaf einhver sem getur hjálpað

Myndin er gerð fyrir fé sem Jón Gnarr lét renna til Kvennaathvarfsins í árslok 2014 eftir að hafa hlotið Friðarviðurkenningu Lennon Ono sjóðsins. Jón Gnarr bauð einnig fram krafta sína með að tala inná myndina og færum við honum okkar innilegustu þakkir. Einnig viljum við þakka Unu Lorenzen fyrir gerð hreyfimynda og Snorra Gunnarsyni fyrir að leggja fram vinnu sína við hljóðsetningu og tónlist.

Vorið 2016 fékk Kvennaathvarfið styrk frá Jafnréttissjóði sem hefur gert okkur kleift að kynna myndina úti á landsbyggðinni, og í skólum landsins.

Hér er slóð á myndina með íslensku tali.

Hér er slóð á myndina með ensku tali.

Hér er slóð á myndina með norsku tali.

Hér er slóð á myndina með spænsku tali.