Það gerðist svolítið sögulegt í athvarfinu í dag þegar fulltrúar Zontaklúbbs Reykjavíkur komu færandi hendi með stofnframlag í Kraftasjóð Kvennaathvarfsins, splunkunýjan sjóð sem mun hafa það hlutverk að styðja konurnar í athvarfinu til sjálfstyrkingar og náms.

Á myndinni má sjá Zontakonurnar Þorbjörgu Kr. Kjartansdóttur, formann klúbbsins og Hörpu Harðardóttur færa Sigþrúði Guðmundsdóttur framkvæmdastýru athvarfsins stofnframlagið. Hugmyndin að sjóðnum kviknaði í símtali Sigþrúðar og Sigríðar Þóru Árdal Zontakonu en Sigríður komst því miður ekki á fundinn í dag.

Við sendum systrum okkar í Zontaklúbbi Reykjavíkur hjartans þakkir og lofum að passa vel upp á Kraftasjóðinn.