Athugið að í hverju sveitarfélagi er félagsþjónusta og barnavernd sem leita má til.

Víða er hægt er að leita eftir aðstoð, hér fyrir neðan er samantekt af helstu aðilum sem leita má til.

Kvennaathvarfið

Athvarf fyrir konur og börn þeirra þegar dvöl í heimahúsum er þeim óbærileg vegna ofbeldis. Athvarfið er einnig fyrir konur sem hefur verið nauðgað og fyrir konur sem eru þolendur mansals. Kvennaathvarfið er staðsett í Reykjavík en er opið fyrir allar konur, óháð búsetu eða lögheimili.

Símaráðgjöf allan sólarhringinn í síma 561 1205. Konur geta hringt og rætt mál sín og fengið stuðning og upplýsingar.

Hægt er að bóka ókeypis viðtöl, þar sem konur geta komið í athvarfið og fengið stuðning og upplýsingar án þess að til dvalar komi. Nauðsynlegt er að hringja áður í síma 561 1205 og panta tíma í viðtal.

Sjálfshjálparhópar starfa á vegum Kvennaathvarfsins, þar sem nokkrar konur hittast reglulega undir handleiðslu starfskonu athvarfsins. Nauðsynlegt er að koma í viðtöl áður.

Þjónusta Kvennaathvarfsins er ókeypis.

Stígamót

Stígamót eru ráðgjafar- og stuðningsmiðstöð fyrir bæði konur og karla, 18 ára og eldri, sem hafa verið beitt hvers kyns kynferðisofbeldi hvort sem er í æsku og/eða á fullorðisárum. Aðstandendur, svo sem foreldrar, makar og vinir, geta einnig fengið stuðning og ráðgjöf á Stígamótum óski þeir þess.
Þjónusta Stígamóta er ókeypis.

Neyðarmóttaka fyrir þolendur kynferðisofbeldis

Markmið neyðarmóttökunnar að tryggja velferð og stöðu þeirra sem til þjónustunnar leita vegna nauðgunar, tilraunar til nauðgunar eða annars kynferðisofbeldis.

Tilgangur með þjónustu neyðarmóttökunnar er að draga úr eða koma í veg fyrir andlegt og líkamlegt heilsutjón sem oft er afleiðing kynferðislegs ofbeldis.

Þeim sem leita til neyðarmóttökunnar skal sýnd fyllsta tillitssemi og hlýja og þess gætt að þeim sé ekki mætt með vantrú eða tortryggni.

Þjónusta Neyðarmóttöku er ókeypis.

Hjálparsíminn 1717 og Netspjall Rauða Krossins

Sjálfboðaliðar veita öllum þeim sem hafa samband virka hlustun, sálrænan stuðning og upplýsingar um þau úrræði sem eru í boði á Íslandi.
Það er opið alla daga ársins, allan sólarhringinn. Þannig er alltaf einhver til að svara bæði símanum og netspjallinu, hvenær sólarhringsins sem það kann að vera.
Þjónusta Rauða Krossins er ókeypis.

Bjarkarhlíð

Bjarkarhlíð er miðstöð fyrir þolendur ofbeldis. Markmið Bjarkarhlíðar er að veita stuðning og ráðgjöf ásamt fræðslu og umfjöllun um eðli og afleiðingar ofbeldis, auk þess að gefa skýr skilaboð um að ofbeldi verði ekki liðið. Bjarkarhlíð býður upp á fyrirlestra og námskeið um birtingarmyndir ofbeldis og afleiðingar þess.

Bjarmahlíð á Akureyri

Bjarmahlíð er sambærileg miðstöð og Bjarkarhlíð en er staðstett á Akureyri. „Bjarmahlíð er miðstöð fyrir þolendur ofbeldis og býður upp á ráðgjöf og upplýsingar fyrir fólk sem hefur verið beitt ofbeldi. Hjá Bjarmahlíð er unnið með þolendum ofbeldis á þeirra forsendum. Öll þjónusta og ráðgjöf er undir sama þaki með það að markmiði að auðvelda þolendum að leita sér aðstoðar. Bjarmahlíð leggur áherslu á þverfaglega samvinnu mismunandi stofnanna og samtaka sem koma að vinnu á staðnum. Brotaþola er mætt í hlýlegu og öruggu umhverfi, á þeirra forsendum og einstaklingum að kostnaðarlausu.“ – af vef Bjarmahlíðar

 • Bjarmahlíð
 • Aðalstræti 14
 • 600 Akureyri
 • Sími: 551 2520
 • Netfang: Bjarmahlid@bjarmahlid.is
 • Vefur Bjarmahlíðar

Kvennaráðgjöfin

Kvennaráðgjöfin er ókeypis lögfræði- og félagsráðgjöf fyrir konur.
Opnunartímar eru þriðjudaga frá kl. 20-22 og fimmtudaga frá kl. 14-16. Megintilgangur starfseminnar er að veita konum stuðning og ráðgjöf, en Kvennaráðgjöfin er opin öllum konum og körlum og má hvort sem er koma eða hringja. Þjónustan er endurgjaldlaus og þurfa þeir sem leita til ráðgjafarinnar ekki að gefa upp nafn eða aðrar persónuupplýsingar.
Hjá Kvennaráðgjöfinni starfa lögfræðingar, félagsráðgjafar, laganemar og félagsráðgjafanemar í sjálfboðavinnu. Alltaf er þörf nýrra sjálfboðaliða og leikur ekki vafi á því að reynslan af sjálfboðastörfum fyrir Kvennaráðgjöfina kemur bæði félagsráðgjafar- og laganemum til góða.
Þjónusta Kvennaráðgjafarinnar er ókeypis.

Heimilisfriður

Heimilisfriður er meðferðar – og þekkingarmiðstöð um ofbeldi í nánum samböndum, og er eina sérhæfða meðferðarúrræðið fyrir karla sem beita ofbeldi á heimilum hér á landi. Um er að ræða einstaklings-og hópmeðferð hjá sálfræðingum. Þótt karlar séu ekki einir um að beita ofbeldi er meðferðarúrræðið aðeins fyrir þá.

Mikilvægt er að rjúfa vítahring ofbeldis með því að styrkja meðferðarúrræði fyrir gerendur.

Markmiðið er að veita körlum sem beitt hafa heimilisofbeldi meðferð og aðstoð séu þeir reiðubúnir að leita sér hjálpar. Verkefnið felur í sér einstaklings- og hópmeðferð fyrir karla sem beita maka sína ofbeldi sem og stuðning við maka þeirra karla sem leita sér aðstoðar.

 • Heimilisfriður
 • Höfðabakka 9
 • 110 Reykjavík
 • Sími : 555-3020
 • Netfang: heimilisfridur@shb9.is
 • Vefur Heimilisfriðar

Drekaslóð

Fræðslu- og þjónustumiðstöð fyrir þolendur alls kyns ofbeldis og aðstandendur þeirra. Miðstöðin er fyrir bæði konur og karla, fyrir fólk sem hefur lent í einelti, þurft að þola vanrækslu í æsku, verið beitt kynferðislegu ofbeldi og fyrir þá sem vilja fræðslu um ofbeldi.

 • Drekaslóð
 • Borgartúni 30, 2. hæð
 • 105 Reykjavík
 • Sími: 551 – 5511 / 860-3358
 • Netfang: drekaslod@drekaslod.is
 • Vefur Drekaslóðar

Þjónustumiðstöðvar Reykjavíkurborgar

Þjónustumiðstöðvar Reykjavíkurborgar eru staðsettar í fimm hverfum og sinna þjónustu ýmiss konar við einstaklinga og fjölskyldur. Þar er hægt að leita sér stuðnings ef um ofbeldistengd málefni eru að ræða, hvort sem það er á heimili eða utan þess.
Stuðningurinn er í formi ráðgjafar ýmiss konar þar sem að þjónustumiðstöðvarnar veita meðal annars félags og fjölskylduráðgjöf.

Barnavernd Reykjavíkur

Velferð barna er Reykjavíkurborg mikilvæg. Starfsfólk Barnaverndar Reykjavíkur tekur við tilkynningum um börn búsett í Reykjavík.

Hvað á að tilkynna? Allt athæfi sem getur verið hættulegt andlegri eða líkamlegri heilsu og þroska barns. Það kann að vera vanræksla, vanhæfni eða framferði foreldra gagnvart barni, áreitni eða ofbeldi af hendi annarra gagnvart barni eða hegðun þess. Einnig skal tilkynna ef grunur er um að refsiverður verknaður hafi verið framinn gegn barni eða af því.