Í fyrra dvöldu 135 konur og 70 börn í Kvennathvarfinu um lengri eða skemmri tíma. Einnig komu 240 konur í viðtöl án þess að til dvalar kæmi.

Góðu fréttirnar eru að 86% kvennanna fóru ekki aftur heim til ofbeldismannsins en hlutfall kvenna sem fóru heim í óbreyttar aðstæður hefur aldrei í sögu athvarfsins verið lægra. Verri fréttir eru að kerfið bregst bæði konum og börnum; helmingur kvennanna hafði óttast um líf sitt, lögreglan hafði komið að málum í 37% tilfella, 12% kvennanna höfðu lagt fram kæru og einungis í fjórðungi þeirra mála hafði dómur fallið.

Á heimilum ofbeldismannanna bjuggu, á þeim tíma sem kona kom í viðtal eða dvöl, samanlagt rúmlega 270 börn undir 18 ára aldri. Í 44% tilfella vissi konan til þess að aðstæður barnanna hefðu verið tilkynntar til barnaverndar en einungis 27% vissu til þess að einhver af börnunum hefðu fengið aðstoð vegna ofbeldisins. Í þeim tilfellum var yfirleitt um að ræða eitt viðtal við sérfræðing eða að barnið hefði möguleika á að ræða við starfsmann skóla en langstærstur hluti hópsins hafði enga aðstoð fengið þrátt fyrir að flestum sé nú orðið ljóst að afleiðingar þess að verða vitni að ofbeldi á heimilum geti verið engu síður alvarlegar en afleiðingar þess að vera beitt ofbeldi á heimilum.

Hér er linkur á umfjöllun Stundarinnar um málið.