Fréttir

Við leitum að rekstrarstýru

11.9.2015

Rekstrarstýran okkar er að láta af störfum eftir langt og farsælt starf og við leitum að arftaka hennar

Um er að ræða, að lágmarki, 60% starf sem felst meðal annars í umsjón með bókhaldi og launagreiðslum, samskiptum við styrktaraðila  og umsjón með félagatali og heimasíðu.  Hins vegar kemur hærra starfshlutfall til greina, allt að fullu starfi. Mun þá viðkomandi sinna sérverkefnum í þágu Kvennaathvarfsins og mun sá hluti starfsins  að miklu leyti taka mið af þekkingu, reynslu og áhugasviði nýrrar starfskonu. Sérverkefni geta hvort sem er snúið að aukinni þjónustu við konur og börn sem leita í athvarfið eða að markaðs- og útgáfumálum svo nokkuð sé nefnt en allar hugmyndir verða skoðaðar.

Við leitum að vel menntuðum, reynslumiklum, talnaglöggum, ábyrgum og tæknilega sjálfstæðum femínista til að móta starfið með okkur. Samskiptahæfni, frumkvæði, jákvæðni og sjálfstæði í vinnubrögðum eru mikilvægir eiginleikar ásamt brennandi áhuga á starfsemi Kvennaathvarfsins.

Nánari upplýsingar veitir Sigþrúður Guðmundsdóttir, framkvæmdastýra Samtaka um kvennaathvarf í netfangi sigthrudur@kvennaathvarf.is.

Umsóknarfrestur er til og með 21. september og skulu umsóknir ásamt starfsferilskrá sendar til framkvæmdastýru í tölvupósti.  Gott er að fram komi í umsókn hversu hátt starfshlutfall myndi henta umsækjanda.