Fréttir

Barátta gegn ofbeldi karla - lögfræðilega hliðin

13.9.2004

Á síðasta ársfundi Samtaka um kvennaathvarf flutti Brynhildur Flóvenz, lögfræðingur erindi um hvernig berjast megi gegn heimilisofbeldi innan lögfræðinnar og um beitingu nálgunarbanns. Hér er erindið birt í heild sinni.

Í Njálssögu segir m.a. frá Hallgerði langbrók og eiginmanni hennar Gunnari á Hlíðarenda og samskiptum þeirra. Eitthvað líkaði Gunnari ekki framkoma konu sinnar og greip því til þess ráðs sem svo margir karlar hafa séð sem eina úrræðið í samskiptum sínum við konur, þ.e. að berja hana.  Þótti það svo sem ekki tiltökumál á þeim tíma frekar en endranær.  En Hallgerður var ekki sú manngerð sem sætti sig við slíka framkomu og beið tækifæris sem hún og fékk sem kunnugt er þegar Gunnar háði sinn lokabardaga og strengur slitnaði í boga hans og hann vildi fá hár úr hinu mikla lokkaflóði konu sinnar til að nota í streng.  Sneri Hallgerður þá upp á sig og minnti hann á barsmíðarnar forðum daga og Gunnar varð einn fárra karlmanna að taka afleiðingum gerða sinna og gjalda fyrir kinnhestinn.  Þetta er fyrsta dæmi sem ég veit um í sögu okkar, sannri eða skáldaðri, þar sem kona rís upp gegn heimilisofbeldi og lætur karlinn gjalda dýru verði ofbeldið.  Með því er ég ekki endilega að segja að konur sem hafa orðið fyrir ofbeldi af hálfu karla eigi að láta þá gjalda fyrir það með lífi sínu heldur miklu fremur að það eru gerendurnir, karlarnir, sem eiga að taka þeim afleiðingum sem ofbeldinu fylgja. 

Þess vegna hafa konur í seinni tíð í æ ríkara mæli snúið sér að körlunum í baráttunni gegn ofbeldi.  Í fyrstu snerist baráttan um að fá heimilisofbeldi viðurkennt sem ofbeldi og skapa úrræði fyrir þær konur og börn sem í hættu voru og var það gert með Kvennaathvarfinu.  Næsta skref er auðvitað að reyna að koma í veg fyrir að ofbeldi eigi sér stað og endurtaki sig. Til þess eru vitanlega ýmis ráð.  Engin ein lausn er á svo umfangsmiklu og flóknu vandamáli að mínu mati heldur verður að grípa til aðgerða á ýmsum sviðum eigi einhver árangur að nást. 

Á mínu sviði, þ.e. innan lögfræðinnar, er ýmislegt sem má gera til að berjast gegn kynbundnu ofbeldi.  Í fyrsta lagi er það svo að í okkar hegningarlögum er ekkert sérákvæði að finna um kynbundið ofbeldi eða heimilisofbeldi.  Í almennu hegningarlögunum er kveðið á um refsingu við líkamlegu ofbeldi í 217. og 218. gr.  Ákvæði þessi eiga rætur að rekja til setningar almennu hegningarlaganna fyrir rúmum 60 árum.  Þegar lögin voru sett voru karlar allsráðandi á Alþingi og því er nokkuð ljóst að það ofbeldi sem þeir voru að fjalla um var ekki heimilisofbeldi eða ofbeldi karla gegn konum sínum heldur fyrst og fremst almennt ofbeldi karla í milli. Almennt er það svo að karlar verða frekar fyrir ofbeldi en konur.  Munurinn á ofbeldi gegn körlum og konum er hins vegar sá að karlar verða fyrst og fremst fyrir ofbeldi af hálfu annarra karla og þá utan heimilis, gjarnan á almannafæri.  Konur verða hins vegar fyrst og fremst fyrir ofbeldi af hálfu karla, innan heimilis, og ofbeldinu er haldið leyndu.  Allur aðdragandi og allt ferli ofbeldis á heimili er annars eðlis en ofbeldis á almannafæri. 

Túlkun fyrrnefndra ákvæða almennu hegningarlaganna frá 1940 þróaðist hjá dómstólunum eins og venjan er um túlkun laga.  Og hverjir voru dómarar fyrstu áratugina eftir gildistöku laganna? Jú, karlar voru allsráðandi í dómarastörfum fyrstu fjóra áratugi laganna, reyndar var Hæstiréttur eingöngu skipaður körlum allt fram á miðjan 9. áratuginn.  Og hvaða máli skiptir það nú?  Eru karlar eitthvað verri dómarar en konur? Nei, svo þarf ekki að vera.  Hins vegar er það svo að dómarar eru menn af holdi og blóði og afstaða þeirra, viðmið og norm hljóta að helgast af þeirri reynslu sem þeir hafa af lífinu sem karlmenn en sú reynsla hefur lengst af verið önnur en reynsla kvenna.

Hvað átti karldómari að vita um eðli heimilisofbeldis árið 1950?  Hefði hann ekki persónulega reynslu af því sjálfur, vissi hann þá yfirleitt að heimilisofbeldi tíðkaðist í samfélaginu í þeim mæli sem það gerði?  Það var hvergi nokkurs staðar talað um það í samfélaginu, hvað þá að gerðar hefðu verið rannsóknir um eðli þess.  Í ljósi þekkingar hans og reynslu var kannski ekkert óeðlilegt að hann túlkaði lögin í málum er vörðuðu heimilisofbeldi á sama hátt og kollegar hans höfðu gert varðandi ofbeldi milli tveggja óskyldra karla.  Við þekkjum  þessa túlkun,  brotin tönn eða brunablettur, 217. gr., brotinn handleggur 218. gr.    Nei, það var í sjálfu sér ósköp skiljanlegt að dómarinn fyrir 40 árum túlkaði lögin eins og þau voru túlkuð. Það sem er hins vegar óeðlilegt er, að í dag þegar við höfum alla þá þekkingu sem við búum yfir um umfang og eðli heimilisofbeldis, að þá skulum við ekki hafa tekið til hendinni og aðlagað réttarkerfið að raunveruleikanum.

Í fyrsta lagi þá er nauðsynlegt að setja ákvæði í almennu hegningarlögin sem taka á því sérstaka broti sem kynbundið ofbeldi er, viðurkenna alvarleik þess, bæði fyrir konuna sjálfa og börnin þegar um þau er að ræða.  Í öðru lagi þarf að skýra heimildir lögreglu betur.  Svo virðist sem lögreglan telji oft og tíðum að hún geti lítið gert þegar um heimilisofbeldi er að ræða, t.d. að hún geti ekki fjarlægt ofbeldismanninn.  Ég tel hins vegar að ógni maður lífi eða heilsu annarrar manneskju, jafnvel þó það sé nú bara konan hans, þá beri lögreglu ekki síður skylda til að koma í veg fyrir það brot eins og öll önnur brot og nota til þess öll þau úrræði sem hún hefur yfir að ráða þ.á.m. að fjarlægja ofbeldismanninn og skella honum í steininn eins og gert er við óróaseggi í miðbænum um helgar sem ógna umhverfi sínu.  En þar sem svo virðist sem lögreglan sé dálítið tvístígandi í afstöðu sinni þá held ég að rétt væri að taka af allan vafa og veita lögreglu skýra heimild til að fara inn á heimili þar sem ofbeldi er til staðar og fjarlægja þaðan ofbeldismanninn.  Ekki síst er það nauðsynlegt þegar börn eru á heimilinu, reyndar tel ég að í ljósi barnaverndarlaga sé mönnum það skylt. 

Nú, nauðsynlegt er einnig að skerpa á ákærureglum.  Með tilliti til eðlis heimilisofbeldis tel ég rétt að skerpa á því að málið sæti opinberri ákæru og það á ekki að vera undir vilja konunnar komið til að kæra hvort kært er eður ei.  Heimilisofbeldi er ekki bara brot gegn einstaklingnum sem barinn er eða skaddaður heldur einnig samfélaginu í heild sinni og auðvitað þá ekki síst börnunum.  Þegar um börn er að ræða tel ég fráleitt að það sé undir konunni komið hvort hið opinbera hefst handa og saksækir viðkomandi ofbeldismann. Vissulega getur verið erfitt að reka mál þar sem aðalvitnið vill kannski ekki bera vitni.  En það þýðir ekki að það sé ómögulegt.  Oft eru vitni að ofbeldinu og þegar á reynir held ég nú að konur myndu taka fegins hendi því tækifæri sem fengist til að stöðva ofbeldið, sem málssókn gæti falið í sér, þ.e. málssókn sem þær þyrftu sjálfar ekki að hafa frumkvæðið að. Í lögum um meðferð opinberra mála er heimilt að falla frá saksókn ef brot er smávægilegt eða sérstaklega stendur á og þegar almannahagsmunir krefjast þess ekki.  Þetta eru allt ósköp sakleysisleg ákvæði að sjá en í þeim felst mikið vald saksóknara.  Hvenær krefjast almannahagsmunir þess að mál sé höfðað vegna heimilisofbeldis?  Að mati saksóknara er það sjaldan, að mínu mati er hér um samfélagsvanda að ræða sem nauðsynlegt er að uppræta og það verður ekki gert nema menn verði látnir standa skil gerða sinna.  Ég tel það  því vera almannahagsmuni að saksótt sé í þessum málum.

Loks vil ég nefna nálgunarbannið.  Þeir dómar sem fallið hafa í þeim fáu málum sem rekin hafa verið frá því ákvæði um nálgunarbann komu inn í íslensk lög sýna að dómsvaldið ætlar sér að túlka þessa heimild þröngt.  Því hefur í umræðunni m.a. verið haldið fram að nauðsynlegt sé að beita þessu úrræði varlega þar sem í því felist mikil skerðing á ferða- og persónufrelsi karlsins.  Þetta tel ég vera fjarri sanni.  Nálgunarbann felst í því að viðkomandi einstaklingur má ekki hafa samband við eða nálgast konu, oftast fyrrverandi eiginkonu, kærustu eða sambýliskonu.  Venjulega er það nú svo að ef maður verður fyrir því að einhverjum líkar ekki við mann og vill ekki fá mann í heimsókn eða tala við mann í síma, þá sættir maður sig nú bara við það og lítur ekki á það sem stórkostlega skerðingu á ferðafrelsi sínu.  Hér er hins vegar um að ræða menn sem þrátt fyrir yfirlýstan vilja konunnar sem um ræðir, sætta sig ekki við það að hún vill ekki hafa viðkomandi nálægt sér. Af hverju þykir það svona mikil frelsisskerðing að karl megi ekki trufla konu sem vill ekkert með hann hafa og er að auki trúlega hrædd við hann, oftast ekki að ástæðulausu.  Getur það verið að hugmyndin um að konur geti sett körlum stólinn fyrir dyrnar með aðstoð réttarkerfisins sé einfaldlega of stór biti fyrir okkur að kyngja?  Af hverju eru hagsmunir konunnar af því að geta gengið óhrædd heim til sín eða svarað óhrædd í símann minni en hagsmunir karlsins af því að fá að áreita konu sem vill ekki hafa hann nálægt sér?  Hér er að mínu mati einhver meiri háttar skekkja á ferðinni. 

Í tengslum við nálgunarbannið er svo rétt að nefna að ég tel sjálfsagt að setja ákvæði í lög sem heimila brottflutning ofbeldismanns af heimilinu í tiltekinn tíma eftir að hann beitir ofbeldi og að lögrelgan fái þá heimild, svipað og er í Austurríki og við getum kannski rætt hérna nánar um á eftir.

Ég hef reynt að drepa á helstu þætti í lögum sem hægt er að grípa til í baráttunni gegn kynbundnu ofbeldi.  Vitanlega eru svo mörg önnur úrræði en réttarúrræði, og vil ég þar sérstaklega nefna friðarfræðslu í grunnskólum, meðferðarúrræði fyrir gerendur og fræðslu til starfsmanna í heilbrigðis- og menntakerfi sem og félagsþjónustu þar sem starfsfólk er frætt um aðferðir til að greina heimilisofbeldi og viðbrögð við því.