Fréttir

Hvað er andlegt ofbeldi?

2.11.2004

Andlegt ofbeldi er eitt af þeim hugtökum sem er oft farið frjálslega með án þess að skilningur fylgi. Andlegt ofbeldi karla gagnvart konum verður þegar sjálfsmynd konunnar fer að brotna niður og maður nýtir sér það sem stjórntæki. Stjórnunin felst þá í því að maðurinn hefur meiri áhrif á líðan, hegðun og skoðanir konunnar en hún sjálf. Margar konur sem koma í Kvennaathvarfið búa við andlegt ofbeldi jafn sem líkamlegt og kynferðislegt en þó að sár utan á líkamanum gróa fljótt gróa ósýnileg ör andlegs ofbeldis seint. Fleiri konur leita stuðnings hjá Kvennaathvarfinu vegna andlegs ofbeldis en líkamlegs og er það til marks um hversu alvarlegt það getur verið.

Andlegt ofbeldi karla gegn konum getur birst með mörgum hætti en það hefur verið skýrt með þessum hætti:

Einangrun

Þegar komið er í veg fyrir að kona hitti vini og fjölskyldu og jafnvel komið í veg fyrir að hún stundi nám eða vinnu. Tekin eru af konunni persónuskilríki, dvalarleyfi og fylgst er með hverri hreyfingu. Maðurinn hringir stöðugt í konuna til að fylgjast með ferðum hennar, við hverja hún talar, hvað hún sé að gera og hvernig samskiptum hennar við annað fólk er háttað.

Efnahagsleg stjórnun

Maðurinn takmarkar aðgang konunnar að peningum og skammtar henni jafnvel fyrir brýnustu nauðsynjum. Konan þarf að biðja um hverja krónu og hún veit ekki hvernig fjármálum heimilisins er háttað eða hvernig peningunum er ráðstafað. Stundum eru teknir af konunni peningar sem hún á og hún hefur ekki fjárráð yfir eigin aflafé.

Hótanir og ógnanir

Konunni er ógnað með svipbrigðum og bendingum, jafnvel eyðilagðir hlutir sem hún á og eru henni kærir. Maðurinn meðhöndlar vopn eða aðra skaðlega hluti og hótar að beita þeim gagnvart konunni eða meiða börnin. Stundum er konum hótað lífláti eða að maðurinn fremji sjálfsmorð. Ef konan er af erlendum uppruna er jafnvel hótað að láta vísa henni úr landi eða kona er sögð geðveik og réttast væri að vista hana á geðdeild.

Tilfinningaleg kúgun

Konan er brotin niður og niðurlægð með háði og uppnefnum. Hún er stöðugt gagnrýnd og látin finna fyrir vanmetakennd, að hún sé heimsk, barnaleg eða jafnvel geðveik. Hróp og öskur eru hluti af tilfinningalegri kúgun og stöðugar ásakanir fyrir eitthvað sem hún hefur enga stjórn á og er jafnvel verk mannsins sjálfs.

Andlegt ofbeldi getur verið mjög lúmskt og ferlið tekið mörg ár án þess að nokkurn tíman séu lagðar hendur á konuna. Án þess að fólk átti sig á því getur ofbeldið verið orðið mjög gróft en viðmiðin hafa færst til og það sem eru óeðlileg samskipti þykja hversdagsleg. Samskipti geta byrjað með ástúð og hlýju og til dæmis afbrýðisemi þótt vottur um ást og umhyggju. Þegar kona er farin að breyta hegðan sinni og lífi sínu þannig að maðurinn þurfi ekki að hafa ástæðu til afbrýðisemi, til dæmis að forðast að tala við aðra karlmenn, er maðurinn farinn að stjórna konunni og ástandið orðið óeðlilegt. Sömuleiðis ef konunni er sagt hvað hún eigi að segja og hugsa, í hverju hún eigi að vera og svo framvegis.

Til að konur geti metið hvort þær búi við andlegt ofbeldi er hægt að notast við matslista eins og þennan:

 • Óttastu hann undir einhverjum kringumstæðum?
 • Er hann uppstökkur, skapbráður og/eða fær bræðisköst?
 • Verður hann auðveldlega reiður undir áhrifum áfengis?
 • Reynir hann að koma í veg fyrir að þú farir þangað sem þú vilt fara, eða að þú stundir þína vinnu, skóla eða áhugamál?
 • Fylgist hann með þér hvar og hvenær sem er?
 • Ásakar hann þig sífellt um að vera sér ótrú?
 • Gagnrýnir þig, vini þína og/eða fjölskyldu?
 • Áskar þig stöðugt – ekkert sem þú gerir er rétt eða nógu vel gert?
 • Segir að “eitthvað sé að þér” þú sért jafnvel “geðveik”?
 • Gerir lítið úr þér fyrir framan aðra?
 • Hefur yfirráð yfir fjármálum ykkar og krefst skýringa á hverri krónu?
 • Eyðileggur persónulegar eigur þínar af ásettu ráði?
 • Hrópar/öskrar á þig eða börnin?
 • Ógnar þér með svipbrigðum, hreyfingum eða bendingum?
 • Hótar að skaða þig, börnin eða aðra þér nákomna?

Ef eitthvað af þessu á við maka þinn er kominn tími til að staldra við og meta hvort þú búir við andlegt ofbeldi. Starfskonur Kvennaathvarfsins eru alltaf til í að veita aðstoð, ráðgjöf og stuðning í síma 561 1205.